Skýrsla sem gefin var út í dag fjallar um útfærslur á drögum átakshóps ríkisstjórnarinnar að úrbótum í húsnæðismálum. Hún fjallar meðal annars um að auka þátt rafrænnar stjórnsýslu og ráðast eigi í sértækar aðgerðir til að lækka byggingakostnað.


Styttri byggingartími, einfaldara regluverk, lækkun byggingarkostnaðar og stóraukin rafræn stjórnsýsla í byggingariðnaði eru meðal tillaga sem kynntar voru á fundi Byggingavettvangsins í morgun.


Tillögurnar miða að því með einum eða öðrum hætti að bæta og einfalda regluverk og ferla og leggja með því grunninn að því að hægt verði að byggja húsnæði á hagkvæmari hátt, sem skili sér í lægra húsnæðisverði, segir í tilkynningu.


Rafrænt ferli

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, kynnti tillögurnar sem eru fjórar. Í þeim er gert ráð fyrir að Byggingargátt verði gerð að lagaskyldu en með því opnast möguleiki á að færa skil, eftirlit og kærur í rafrænt ferli, nýta rafrænar undirskriftir og fá þannig yfirsýn yfir byggingamarkaðinn á einum stað og spara sömuleiðis tíma sem fer í að ferðast með pappíra milli aðila.


Þá er gert ráð fyrir að tekin verði upp flokkun mannvirkja sem mun auka sveigjanleika og stytta byggingartíma, einkum einfaldari mannvirkja. Einnig er gert ráð fyrir ákvæði um faggiltar skoðunarstofur sem mun auðvelda úthýsingu eftirlits til sérhæfðra aðila.


Að lokum er lagt til að kærumál verði færð í sérstaka kærunefnd bygginga- og skipulagsmála og kærufrestir styttir. Þannig er ætlunin að málsmeðferðatími kæra styttist en málsmeðferðartími er nú umtalsvert lengi en lög leyfa og hefur verið að lengjast mjög síðustu misseri.

Samstaða er um að færa byggingarmarkaðinn inn í framtíðina

„Betri húsnæðismarkaður, meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast á byggingamarkaðnum, einfaldara ferli og aukin gæði er eitthvað sem kemur okkur öllum við. Það er mjög mikilvægt að allir þessir aðilar hafa komið sér saman um næstu skref og mikil samstaða er um að færa byggingamarkaðinn inn í framtíðina, það hef ég fundið í öllu þessu ferli, og ekki síst á fundinum í morgun,“ segir Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Byggingavettvangsins.


Byggingavettvangurinn er samráðsvettvangur hagaðila í byggingariðnaði. Skýrsla sem gefin var út í dag fjallar um útfærslur á drögum átakshóps ríkisstjórnarinnar að úrbótum í húsnæðismálum og niðurstöður vinnu átakshópsins og samráðsdags sem haldinn var á vördögum þar sem helstu hagsmunaaðilar í byggingar- og mannvirkjagerð tóku þátt. Í skýrslunni er jafnframt fjallað um nauðsyn þess að auka samvinnu stjórnvalda og annarra hagaðila þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum. Þá er einnig fjallað um að auka þátt rafrænnar stjórnsýslu og ráðast í sértækar aðgerðir til að lækka byggingakostnað, m.a. með breytingum á regluverki.

Greinin var upphaflega birt hér.

SKRÁNING

Nafn
Netfang
Símanúmer
Fyrirtæki / Stofnun
Skilaboð
MEÐ ÞVÍ AÐ SMELLA Á SKRÁNINGU SAMÞYKKIR ÞÚ NOTENDASKILMÁLA OKKAR, Þ.Á.M. PERSÓNUVERNDARSTEFNU.
Skráning á viðburð