Árið 2020 er hafið og 21. öldin orðin fullorðin. Við slík tímamót er vert að líta um öxl á þær viðamiklu breytingar sem síðustu tveir áratugir hafa fært okkur. Það eru þó ekki endilega breytingar sem sumir sáu fyrir sér – það bólar til dæmis enn ekkert á fljúgandi bílum. Tækninni hefur þó fleygt fram á öllum sviðum atvinnulífsins sem hefur breytt í leiðinni áherslum fólks á lífsgæði og samfélagið í heild.


Byggingariðnaðurinn hefur löngum leitt breytingar í heiminum og hefur hugmyndaauðgi í arkitektúr og skipulagsmálum gjörbreytt borgum í takti við nýjar áherslur fólksins sem þar býr. Þarfirnar breytast, meðvitund eykst fyrir nærumhverfinu og áhrif á lífsgæði og heilsu skipta sífellt meira máli.


Mikil uppbygging hefur átt sér stað hér á landi á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Byggja þarf 55 þúsund íbúðir til viðbótar um land allt ef mæta á þeirri þörf sem blasir við næstu þrjátíu árin. Þá er ótalin uppbygging í þjónustu og iðnaði.


Það eru reglurnar sem marka byggingaraðilum rammann. En til þess að uppbyggingin gagnist til framtíðar þarf bæði framsýni og sveigjanleika á vettvangi stjórnvalda sem setja þessar reglur. Byggingaraðilar þurfa að hafa svigrúm til að koma nýjum hugmyndum og betri lausnum í framkvæmd til að tryggja vandað húsnæði í takt við tímann. Regluverkið má ekki tefja framfarir, nýsköpun eða uppbyggingu


Byggja þarf 55 þúsund íbúðir til viðbótar um land allt ef mæta á þeirri þörf sem blasir við næstu þrjátíu árin.

Í lok síðasta árs kynnti ráðherra húsnæðismála ítarlegar útfærslur Byggingavettvangsins á tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem stuðla að umbótum í byggingariðnaði, og breytingar á lögum og reglum sem tryggja eiga umrætt svigrúm fyrir byggingaraðila.


Fyrsta stóra skrefið var tekið um áramótin þegar notkun Byggingargáttar var gerð að lagaskyldu fyrir sveitarfélögin. Það skiptir sköpum fyrir alla sem koma að byggingu húsnæðis því gáttin flýtir fyrir útgáfu leyfa og skilum gagna, auðveldar eftirlit, bætir samskipti og eykur aðgengi að upplýsingum um stöðu uppbyggingar húsnæðis í landinu. Áframhaldandi vinna mun eiga sér stað á vettvangi framkvæmdarvalds og löggjafans en Byggingavettvangurinn mun fylgja málinu þétt eftir.


Við erum á réttri leið við upphaf nýs áratugar en tækninni fleygir sífellt hraðar fram þrátt fyrir að fljúgandi bílar séu ekki enn komnir fram á sjónarsviðið. Stjórnvöld, byggingaraðilar og samfélagið allt þarf því að vera á tánum gagnvart nýjum straumum og stefnum sem í fyrstu virðast umbylta öllu því sem við áður þekktum en á endanum bæta lífsgæði okkar og búa okkur betra umhverfi. Til þess þarf einfalt regluverk sem leyfir góðum hugmyndum og nýsköpun á sviði byggingariðnaðarins að verða að veruleika.


Höfundur er verkefnastjóri Íslenska byggingarvettvangsins.

Greinin var upphaflega birt hér.

SKRÁNING

Nafn
Netfang
Símanúmer
Fyrirtæki / Stofnun
Skilaboð
MEÐ ÞVÍ AÐ SMELLA Á SKRÁNINGU SAMÞYKKIR ÞÚ NOTENDASKILMÁLA OKKAR, Þ.Á.M. PERSÓNUVERNDARSTEFNU.
Skráning á viðburð