Þörfin fyrir hagkvæmt húsnæði hefur aukist í takt við uppbyggingu landsins síðustu ár. Stærstu sveitarfélögin hafa uppi metnaðarfull áform um húsnæðisuppbyggingu á næstu árum og fátt bendir til að hægja muni á henni á næstunni. Áætlað er að byggja þurfi 55 þúsund íbúðir til ársins 2050. Á sama tíma eru umhverfismál komin í forgang, miklar og háværar raddir eru uppi um búsetuúrræði fyrir alla hópa, of háan byggingakostnað og óþarflega langan byggingatíma. Hálfgert frumskógarlögmál er gjarnan sagt ríkja á húsnæðismarkaði og fólk kvartar undan ýmsum hindrunum í veginum við að eignast húsnæði, m.a. að framboðið sé takmarkað. Vitað er að byggingariðnaðurinn er viðkvæmari fyrir sveiflum en hagkerfið almennt. Slíkar sveiflur skapa þjóðhagslegan kostnað.


Vandinn kann að hljóma í eyrum sumra eins og að við viljum ekki bara eiga kökuna og borða hana, heldur hafa hana stærri, baka hana á örfáum mínútum og hafa hana úr 100 prósent lífrænum hráefnum. Þó eru leiðir færar til að ná miklu hagræði á skömmum tíma. Tækifærin felast í samtali hagaðila, einfaldara regluverki og skilvirkari, rafrænni stjórnsýslu. Allir helstu hagaðilar í byggingariðnaði á Íslandi hafa undanfarin misseri unnið að því að greina markaðinn og gera tillögur að úrbótum um hvernig megi byggja hagkvæmar íbúðir til að mæta eftirspurn.


Létta þarf regluverksfarganið

Byggingavettvangurinn, samráðsvettvangur byggingariðnaðarins, atvinnulífsins og opinberra aðila, spilar í þessu efni veigamikið hlutverk en honum hefur verið falið að útfæra og vinna tillögur í skipulags- og byggingarmálum sem voru lagðar fram í skýrslu átakshóps ríkisstjórnarinnar að bættum húsnæðismarkaði. Útfærsla á þeim tillögum verður kynnt á næstu vikum. Það er til mikils að vinna að efla samkeppnishæfni byggingariðnaðarins þannig að hægt sé að byggja hagkvæmari íbúðir. Byggingavettvangurinn og aðilarnir sem að honum standa eru þannig í lykilstöðu til að leiða þetta mikilvæga verkefni.


Fordæmin eru til staðar. Nægir að nefna aðgerðaáætlun ráðherra atvinnuvegaráðuneytisins um einföldun regluverks sem kynnt var á dögunum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, hefur auk þess hrint af stað vinnu sem snýr sérstaklega að ferðamálum og byggingariðnaðinum í samstarfi við OECD. Þar hefur m.a. komið í ljós að regluverkið í greinunum tveimur er eitt það þyngsta meðal ríkjanna sem þar eru undir. Ísland er of lítið til að slíkt gangi upp.


Ef við stöndum rétt að vinnunni er ekkert því til fyrirstöðu að vandinn á húsnæðismarkaði verði úr sögunni; að hægt verði að byggja upp vandað húsnæði hraðar og með hagkvæmari hætti til hagsbóta fyrir alla. Ekki síst fyrir almenning í landinu. Því allir þurfa þak yfir höfuðið.

Höfundur er verkefnastjóri Byggingavettvangsins.


Greinin var upphaflega birt hér.

SKRÁNING

Nafn
Netfang
Símanúmer
Fyrirtæki / Stofnun
Skilaboð
MEÐ ÞVÍ AÐ SMELLA Á SKRÁNINGU SAMÞYKKIR ÞÚ NOTENDASKILMÁLA OKKAR, Þ.Á.M. PERSÓNUVERNDARSTEFNU.
Skráning á viðburð